Fréttir

SKÓLAÞJÓNUSTA RANGÁRVALLA- OG VESTUR – SKAFTAFELLSSÝSLU, HVOLSVELLI, AUGLÝSIR LAUST STARF KENNSLURÁÐGJAFA.

Leitað er að ráðgjafa í sérkennslu og almennri kennslu í grunnskólum. Krafist er almennra kennsluréttinda og menntunar í sérkennslufræðum, auk reynslu af sérkennslu í grunnskóla.
Reynsla af kennsluráðgjöf er æskileg, auk réttinda á helstu greiningartæki sem notuð eru til að greina námserfiðleika nemenda.
Um getur verið að ræða eftir atvikum 50 – 100% starf.
Skólaþjónustan veitir fimm grunnskólum á svæðinu lögbundna sérfræðiþjónustu.
Við stofnunina starfar þegar öflug liðsheild sérfræðinga sem samanstendur af forstöðumanni, leikskólaráðgjafa, náms- og starfsráðgjafa og sálfræðingi.
Leitað er að áhugasömum og jákvæðum einstaklingi sem býr yfir góðri samskiptahæfni, sjálfstæði í vinnubrögðum og sveigjanleika og frumkvæði í starfi.

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skólastjórafélags Íslands vegna starfsmanna á skólaskrifstofum.
Umsóknarfrestur er til 15. júlí nk., en gert er ráð fyrir að ráða í stöðuna frá 1. september.
Umsóknir ásamt náms- og starfsferilsskrá berist á netfangið skolamal@skolamal.is, eða í pósti á Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu,
b.t. Eddu G. Antonsdóttur forstöðumanns, Ormsvelli 1, 860 Hvolsvelli.
Nánari upplýsingar veitir Edda í netfanginu edda@skolamal.is eða í síma 862-7522.

06.06.2017

Lokað vegna sumarleyfa

Dagana 12. – 16. júní og allan júlímánuð verður skrifstofa Skólaþjónustunnar
lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks.

STÓRA UPPLESTRARKEPPNIN.

Stóra upplestrarkeppnin 2017
Frá vinstri: Christian Dagur Kristinsson Laugalandsskóla, Eva María Þrastardóttir Hvolsskóla og Bertha Þorsteinsdóttir Grunnskóla Vestmannaeyja.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir skólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auk Vestmannaeyja fór fram þann 30. mars sl.
Um er að ræða sex skóla, Grunnskólann á Hellu, Hvolsskóla, Kirkjubæjarskóla, Laugalands-skóla, Víkurskóla og Grunnskóla Vestmannaeyja.
Keppendur voru 13 talsins, en að auki var fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.
Umgjörðin var ekki af verri endanum, en hátíðin fór að þessu sinni fram í Eldheimum í Vest-mannaeyjum og höfðu þeir Eyjamenn veg og vanda af allri framkvæmd sem var til mikillar fyrirmyndar. Nemendur Tónlistarskóla Vestmannaeyja sáu um tónlistaratriði og boðið var upp á ljúffengar veitingar í hléi.
Veðrið var upp á sitt besta þennan dag og gátu keppendur og fylgdarlið þeirra ofan af landi farið fljúgandi frá Bakkavelli í Landeyjum.
Allir krakkarnir stóðu sig mjög vel og bar frammistaða þeirra sannarlega vitni góðri vinnu og þjálfun í skólunum í vetur.
Eins og oft áður var dómnefndinni vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara, en á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

1. sæti Eva María Þrastardóttir Hvolsskóla
2. sæti Christian Dagur Kristinsson Laugalandsskóla
3. sæti Bertha Þorsteindóttir Grunnskóla Vestmannaeyja

09.02.2017

Niðurstöður PISA-könnunar frá árinu 2015.

Nú hafa Skólaþjónustunni borist niðurstöður úr PISA-könnuninni frá árinu 2015, fyrir skólana fimm á okkar þjónustusvæði.

PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms.

Vegna smæðar eru ekki gefnar upp niðurstöður einstakra skóla, heldur eingöngu útkoma svæðisins í heild. Af sömu ástæðu, þ.e. smæðar hópsins, eru niðurstöðurnar settar fram með fyrirvörum um áreiðanleika og há vikmörk.

Við höfum því miður ekki undir höndum niðurstöðurnar frá 2012 til samanburðar, þar sem Skólaþjónustan var ekki tekin til starfa þá og okkur hefur ekki enn tekist að fá þær upplýsingar frá Menntamálstofnun, en unnið er í málinu.

Það er afar ánægjulegt að sjá (þó með fyrrgreindum fyrirvörum um áreiðanleika) að krakkarnir okkar voru vel yfir landsmeðaltali í öllum þremur greinum PISA, læsi á náttúrusviði, stærðfræði og lesskilningi og einnig yfir OECD-meðaltali í öllum greinum.

Þetta eru sannarlega góðar fréttir, ekki síst í ljósi umræðunnar í fjölmiðlum nú á haustdögum þar sem ítrekað kom fram að niðurstöður skóla á landsbyggðinni hefðu almennt verið mjög slakar og langt fyrir neðan niðurstöður skólanna í stóru sveitarfélögunum.

Í öllum skólunum okkar hefur á undanförnum árum verið lögð mikil áhersla á lestur og lestrar-færni, m.a. lesskilning. M.a. hefur í auknum mæli verið kallað eftir samstafi við foreldra og forráðamenn varðandi lestrarþjálfun barna sinna. Við höfum einnig fylgst vel með því sem skólar annarsstaðar hafa verið að gera í þessum efnum og gert ýmsar ráðstafanir út frá því, m.a. tekið upp skimanir í lestri í 3., 6. og 9. bekk sem unnið er síðan út frá í kennslunni.

Þó þessar niðurstöður séu settar fram með fyrrgreindum fyrirvörum, getum við samt litið á þær sem vísbendingu um að við séum á réttri leið. Ég vona sannarlega að þær verði hvatning til starfsfólks skólanna og foreldra til frekari dáða og áframhalds á þessari braut.