Fréttir

10.12.2019

Til hamingju!

Þann 25. nóvember sl. hélt Félag sérkennara á Íslandi aðalfund og fræðsludag fyrir sérkennara og aðra sem sinna sérkennslu í leik- og grunnskólum. Skemmst er frá því að segja að kennsluefnið Orðagull fékk heiðursverðlaun félagins. Annar tveggja höfunda þess er Ásthildur Bj. Snorradóttir, verkefnastjóri þróunarverkefnisins Snemmtæk íhlutun í máli og læsi sem allir leikskólar á svæði Skólaþjónustunnar vinna að. Hinn höfundurinn er Bjartey Sigurðardóttir. Þær stöllur hafa bæði saman og sundur gefið út fjölbreytt kennsluefni sem örvar málþroska barna.  Til hamingju, Ásthildur og Bjartey!

07.10.2019

Snemmtæk íhlutun – mál og læsi

Þróunarverkefni í leikskólum Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu

Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu ásamt leikskólunum Laugalandi, Heklukoti á Hellu, Örk á Hvolsvelli, Mánalandi í Vík og Heilsuleikskólanum Kærabæ á Kirkjubæjarklaustri héldu sameiginlegan námskeiðsdag fyrir starfsfólk skólanna 30. ágúst síðastliðinn.

Dagurinn markaði upphaf vinnu við þróunarverkefnið „Snemmtæk íhlutun – mál og læsi“ en því mun ljúka árið 2021. Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur leiðir verkefnið í samstarfi við hóp starfsmanna frá leikskólunum fimm.

 

Ásthildur Bj. Snorradóttir

Grunnur þróunarverkefnisins er að efla færni nemenda í íslensku – ekki síst nemenda með annað móðurmál auk þess að efla lærdómssamfélagið og samvinnu við þá sem örva málþroska barnanna. Stefnt er að því að hver leikskóli eignist ítarlega handbók þar sem verkferlar málörvunar eru útfærðir. Meðal markmiða með verkefninu er að nemendur verði vel undirbúnir fyrir 1. bekk grunnskóla og samfella verði í námi milli skólastiga, í anda heildstæðrar skólastefnu.

Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu

 

 

 

20.08.2019

Nýr forstöðumaður Skólaþjónustu.

Nýr forstöðumaður, Þórunn Jóna Hauksdóttir, hefur verið ráðinn við Skólaþjónustuna. Edda G. Antonsdóttir hefur gengt starfinu allt frá stofnun, í ársbyrjun 2014, þegar Skólaskrifstofa Suðurlands var lögð niður.

Þórunn Jóna hefur leyfisbréf til kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi og framhaldsmenntun á sviði stjórnunar og stefnumótunar. Hún kenndi áður við grunn- og framhaldsskóla, en hefur frá árinu 2012 starfað í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Þórunn Jóna mun hefja störf hér hjá okkur þann 1. september nk. og er hún boðin hjartanlega velkomin til starfa.

 

 

20.07.2019

Frábær gjöf til Skólaþjónustunnar og leikskólanna.

Leikskólunum fimm á starfssvæði Skólaþjónustunnar barst á dögunum höfðingleg gjöf þegar Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur heimsótti Skóla-þjónustuna og færði henni og leikskólunum fimm á starfssvæðinu að gjöf mál- og talþjálfunarefnið Lærum og leikum með hljóðin. Efni þetta byggir m.a. á rannsóknum og fagþekkingu talmeinafræðinnar og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar.

Bryndís hefur starfað sem talmeinafræðingur á Íslandi í rúm 30 ár og samið og gefið út mikið og fjölbreytt efni til mál- og talþjálfunar. Með stuðningi nokkurra fyrirtækja, auk framlags Bryndísar sjálfrar fá allir leikskólar á Íslandi pakka af heildstæðu þjálfunarefni að gjöf til að nýta í starfi sínu með börnunum. Ýmislegt aukaefni sem styður við hljóðanámið fylgir með í skólapökkunum s.s. púsl, límmiðar, vinnusvuntur og smáforrit. Efnið kemur í fallegum töskum sem skólarnir fá til eignar. Bryndís mun fylgja efninu eftir með vefnámskeiðum sem verða auglýst síðar.

Auk þess sem efnið nýtist vel við þjálfun barna í leikskólanna er hægt að lána það heim til foreldra sem þess óska.

Þeir aðilar sem leggja þessu lofsverða framtaki lið og gera gjöfina mögulega eru  auk Raddlistar talmeinaþjónustufyrirtækis Bryndísar og fjölskyldu hennar: Marel, Lýsi, Ikea og hjónin Björgólfur Thor og Kristín Ólafsdóttir.

Þessi góða gjöf er mjög kærkomin og mun sannarlega nýtast vel í skólastarfinu, en nú í haust fer einmitt af stað sérstakt þróunarverkefni í leikskólunum fimm sem standa mun fram til vors 2021. Verkefnið, sem styrkt er myndarlega af Sprota-sjóði, hefur það að markmiði að efla málþroska nemendanna og undirbúa þá undir lestararnám í grunnskóla.

 

Skrifstofa Skólaþjónustunnar er lokuð vegna sumarleyfa frá 1. – 31. júlí.

Opnum aftur fimmtudaginn 1. ágúst.

 

 

 

11.04.2019

Þróunarverkefni í leikskólunum á starfssvæði Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur –Skaftafellssýslu.

Í ágúst nk. fer af stað þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun í leikskólum sem tilheyra Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, með sérstakri áhersla á málþroska og undirbúning undir lestur.
Verkefnið mun væntanlega standa í 1 ½ – 2 ár og hefur Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur verið ráðin verkefnisstjóri, í samvinnu við sérfræðinga Skóla-þjónustunnar. Sprotasjóður hefur úthlutað verkefninu styrk að upphæð kr. 2.250.000.
Um er að ræða samstarfsverkefni allra leikskólanna fimm á starfssvæði Skóla-þjónustunnar, leikskólans á Laugalandi, leikskólans Heklukots á Hellu, leikskólans Arkar á Hvolsvelli, leikskólans Mánalands í Vík og heilsuleikskólans Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri. Samtals eru þessir fimm leikskólar með ca 260 nemendur. Verkefnið hefst formlega með heilsdags námskeiði alls starfsfólks leikskólanna í ágúst nk.
Markmið með verkefninu er m.a. :
– að styrkja og efla málþroska leikskólabarna með áherslu á læsi í víðum skilningi
– að öll börn í leikskólum sem tilheyra starfssvæði Skólaþjónustunnar nái hámarksárangri hvað varðar íslenskt mál, tal og boðskipti og undirbúning undir lestur,
– að auka samstarf við sérfræðinga og foreldra hvað varðar málörvun og læsi.
– að auka fræðslu á þessu sviði til foreldra.

10.apríl 2019

Stóra upplestrarkeppnin á skólaþjónustusvæði Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu auk Vestmannaeyja.

Þann 8. apríl sl. var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir grunnskólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Grunnskóla Vestmannaeyja haldin í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Skólarnir sex sem þátt tóku í lokahátíðinni voru Grunnskólinn á Helli, Grunnskóli Vestmanna-eyja, Hvolsskóli, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli og Víkurskóli.
Keppendur voru 13 talsins, en að auki var nokkur fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.
Nemendur Hvolsskóla úr valinu Þjóðleikur fluttu lög úr leikritinu Dúkkulísu, milli þess sem
keppendur lásu upp ljóð og sögu og í hléi voru bornar fram glæsilegar kaffiveitingar.
Keppendurnir 13 stóðu sig með mikilli prýði og var dómurum vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara.
Á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

1. sæti Lilja Dögg Ágústdóttir Hvolsskóla
2. sæti Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja
3. sæti Sunna Hlín Borgþórsdóttir Laugalandsskóla


Myndatexti:
Frá vinstri: Kristín Sigfúsdóttir aðstoðarskólastjóri Laugalandsskóla, Sunna Hlín Borgþórsdóttir Lauga-landsskóla (3. sæti), Jóhanna Alfreðsdóttir kennari Grunnskóla Vestmannaeyja, Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja (2. sæti), Anna Kristín Guðjónsdóttir kennari Hvolsskóla, Lilja Dögg Ágústs-dóttir Hvolsskóla (1. sæti).

Tímabundnar breytingar á sálfræðiþjónustu.

Ragnar S. Ragnarsson sálfræðingur verður í ársleyfi frá störfum við Skólaþjónustuna frá 1. des. 2018, til 1. desember 2019.
Ekki hefur enn tekist að ráða staðgengil fyrir hann þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.
Vonandi tekst sem fyrst að manna stöðuna, en þangað til munum við kaupa sálfræðiþjónustu af Sálstofunni í Kópavogi.
Þar starfa nokkrir sálfræðingar sem sérhæfa sig í ákveðnum málaflokkum og aldri barna.
Sálfræðingar frá Sálstofunni, gjarnan 2 – 3 í senn, munu verða hér hjá okkur nokkra daga í mánuði og sinna greiningum
og ráðgjöf við foreldra og skóla. Þeir verða fyrst á ferðinni um miðjan janúar og munu þá heimsækja nokkra leik- og grunnskóla
og sinna þeim málum sem þegar hafa borist beiðnir um.