Fréttir

Skrifstofa Skólaþjónustunnar er lokuð vegna sumarleyfa frá 1. – 31. júlí.

Opnum aftur fimmtudaginn 1. ágúst.

 

28.06.2019

 

SKÓLAÞJÓNUSTA RANGÁRVALLA- OG VESTUR – SKAFTAFELLSSÝSLU, HVOLSVELLI, AUGLÝSIR EFTIRFARANDI STÖRF LAUS TIL UMSÓKNAR:

Stöðu forstöðumanns skólaþjónustunnar sem auk stjórnunar stofnunarinnar, sinnir einnig að hluta sérkennsluráðgjöf í grunnskólum á svæðinu. Krafist er menntunar í sérkennslufræðum auk almennra kennsluréttinda og farsællar reynslu á sviði kennslu/sérkennslu í grunnskóla. Menntun og reynsla á sviði stjórnunar og kennsluráðgjafar í grunnskólum er æskileg, auk réttinda á helstu greiningartæki sem notuð eru til að greina námserfiðleika nemenda á því skólastigi. Um er að ræða 100% starf.

Stöðu kennsluráðgjafa í grunnskólum. Leitað er að ráðgjafa í sérkennslu og almennri kennslu. Krafist er menntunar á sviði sérkennslu auk almennra kennsluréttinda og farsællar reynslu af kennslu/sérkennslu í grunnskóla. Reynsla af kennsluráðgjöf er æskileg, auk réttinda á helstu greiningartæki sem notuð eru til að greina námserfiðleika nemenda í grunnskólum. Um er að ræða 50 – 100% starf.

Skólaþjónustan veitir tíu leik- og grunnskólum á svæðinu lögbundna sérfræðiþjónustu. Við stofnunina starfar öflug liðsheild sérfræðinga sem samanstendur af forstöðumanni, kennsluráðgjafa, leikskólaráðgjafa, náms- og starfsráðgjafa og sálfræðingi. Sérfræðingar skólaþjónustunnar eiga í nánu og góðu samstarfi við starfsfólk félagsþjónustunnar með heildarhagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi.

Leitað er að áhugasömum og jákvæðum einstaklingum sem búa yfir afbragðsgóðri samskiptahæfni, sjálfstæði í vinnubrögðum og sveigjanleika og frumkvæði í starfi.

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skólastjórafélags Íslands vegna starfsmanna á skólaskrifstofum.

Umsóknarfrestur er til 15. júlí nk., en viðkomandi þurfa að geta hafið störf sem fyrst. Umsóknir ásamt náms- og starfsferilsskrám berist á netfangið skolamal@skolamal.is, eða í pósti á Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, b.t. Eddu G. Antonsdóttur forstöðumanns, Austurvegi 4, 860, Hvolsvelli. Nánari upplýsingar veita Edda í netfanginu edda@skolamal.is eða í síma 862-7522 og Lilja Einarsdóttir formaður stjórnar Byggðasamlags um félags- og skólaþjónustu í netfanginu lilja@hvolsvollur.is eða í síma 863-8282.

 

11.04.2019

Þróunarverkefni í leikskólunum á starfssvæði Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur –Skaftafellssýslu.

Í ágúst nk. fer af stað þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun í leikskólum sem tilheyra Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, með sérstakri áhersla á málþroska og undirbúning undir lestur.
Verkefnið mun væntanlega standa í 1 ½ – 2 ár og hefur Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur verið ráðin verkefnisstjóri, í samvinnu við sérfræðinga Skóla-þjónustunnar. Sprotasjóður hefur úthlutað verkefninu styrk að upphæð kr. 2.250.000.
Um er að ræða samstarfsverkefni allra leikskólanna fimm á starfssvæði Skóla-þjónustunnar, leikskólans á Laugalandi, leikskólans Heklukots á Hellu, leikskólans Arkar á Hvolsvelli, leikskólans Mánalands í Vík og heilsuleikskólans Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri. Samtals eru þessir fimm leikskólar með ca 260 nemendur. Verkefnið hefst formlega með heilsdags námskeiði alls starfsfólks leikskólanna í ágúst nk.
Markmið með verkefninu er m.a. :
– að styrkja og efla málþroska leikskólabarna með áherslu á læsi í víðum skilningi
– að öll börn í leikskólum sem tilheyra starfssvæði Skólaþjónustunnar nái hámarksárangri hvað varðar íslenskt mál, tal og boðskipti og undirbúning undir lestur,
– að auka samstarf við sérfræðinga og foreldra hvað varðar málörvun og læsi.
– að auka fræðslu á þessu sviði til foreldra.

10.apríl 2019

Stóra upplestrarkeppnin á skólaþjónustusvæði Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu auk Vestmannaeyja.

Þann 8. apríl sl. var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir grunnskólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Grunnskóla Vestmannaeyja haldin í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Skólarnir sex sem þátt tóku í lokahátíðinni voru Grunnskólinn á Helli, Grunnskóli Vestmanna-eyja, Hvolsskóli, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli og Víkurskóli.
Keppendur voru 13 talsins, en að auki var nokkur fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.
Nemendur Hvolsskóla úr valinu Þjóðleikur fluttu lög úr leikritinu Dúkkulísu, milli þess sem
keppendur lásu upp ljóð og sögu og í hléi voru bornar fram glæsilegar kaffiveitingar.
Keppendurnir 13 stóðu sig með mikilli prýði og var dómurum vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara.
Á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

1. sæti Lilja Dögg Ágústdóttir Hvolsskóla
2. sæti Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja
3. sæti Sunna Hlín Borgþórsdóttir Laugalandsskóla


Myndatexti:
Frá vinstri: Kristín Sigfúsdóttir aðstoðarskólastjóri Laugalandsskóla, Sunna Hlín Borgþórsdóttir Lauga-landsskóla (3. sæti), Jóhanna Alfreðsdóttir kennari Grunnskóla Vestmannaeyja, Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja (2. sæti), Anna Kristín Guðjónsdóttir kennari Hvolsskóla, Lilja Dögg Ágústs-dóttir Hvolsskóla (1. sæti).

Tímabundnar breytingar á sálfræðiþjónustu.

Ragnar S. Ragnarsson sálfræðingur verður í ársleyfi frá störfum við Skólaþjónustuna frá 1. des. 2018, til 1. desember 2019.
Ekki hefur enn tekist að ráða staðgengil fyrir hann þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.
Vonandi tekst sem fyrst að manna stöðuna, en þangað til munum við kaupa sálfræðiþjónustu af Sálstofunni í Kópavogi.
Þar starfa nokkrir sálfræðingar sem sérhæfa sig í ákveðnum málaflokkum og aldri barna.
Sálfræðingar frá Sálstofunni, gjarnan 2 – 3 í senn, munu verða hér hjá okkur nokkra daga í mánuði og sinna greiningum
og ráðgjöf við foreldra og skóla. Þeir verða fyrst á ferðinni um miðjan janúar og munu þá heimsækja nokkra leik- og grunnskóla
og sinna þeim málum sem þegar hafa borist beiðnir um.