Fréttir

Heimasíða skólaþjónustunnar er í endurskoðun. Á það við um innihald og útlit. Allar ábendingar vel þegnar.

25.09.20

Menntakvika HÍ verður dagana 1. og 2. október. Nánari upplýsingar á vefslóð: Padlet-síða leikskólaráðgjafa um Menntakviku 2020
Við viljum vekja sérstaka athygli á fyrirlestri Halldóru Guðlaugar leikskólaráðgjafa sem fer fram föstudaginn 2. október kl 13:45 til 15:15 í málstofu, á Zoom-fjarfundarbúnaði, um Lesvanda og margþætt eðli læsis. Þrír fyrirlestrar verða til umræðu og er málstofustjóri: Heiða María Sigurðardóttir
Featural and Configural Processing of Faces and Houses in Matched Dyslexic and Typical Readers
Bahareh Jozranjbar, PhD student, SHS, UI. Supervisors: Heiða Marí Sigurðardóttir, associate professor, SHS, UI and Árni Kristjánsson, professor, SHS
Leið að lærdómssamfélagi
Halldóra Guðlaug, meistaranemi og Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellsýslu og Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur
Orð af orði kennslufræðin til innleiðingar í leikskóla
Guðmundur Engilbertsson, lektor HA
Umræður

11.08.20

Skólaþjónustan þarf því miður að fella niður menntadaginn 12. ágúst. Ekki er hægt að tryggja nálægðarmörk og aðrar varnir sem heilbrigðisyfirvöld hafa auglýst vegna kórónuveirufaraldursins.

01.07.20

Skólaþjónustan heldur þeim sið að loka í júlí. Gleðilegt sumar!

 

25.5.2020

Bendum á fjölbreyttar leiðir í leikskólakennaranámi

27.4.2020

Hér neðar eru tenglar á svör við spurningum sem teknar voru saman í samstarfi við SÍ, FG, FSL, FL, sambandsins og SFS. Menntamálaráðuneytið tók svörin saman sjá tengil hjá mrn. https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/spurt-og-svarad-skolastarf-a-neydarstigi-almannavarna/

Skipulag og framkvæmd skólahalds í leikskólum frá 4. maí 2020

Skipulag og framkvæmd skólahalds í grunnskólum og frístund frá 4. maí 2020

 

24.3.2020

Facebook/Snjáldurskinna

20. mars síðast liðinn setti Skólaþjónustan í loftið síðuna Skólamál á Facebook og eru tæplega 200 einstaklingar sem láta sér líka við okkur. Kunnum við þeim þakkir fyrir.

Einnig langar okkur að minna á að Arnheiður náms- og starfsráðgjafi heldur úti síðu á Facebook sem heitir Náms- og starfsráðgjöf Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellsýslu/NosSRVS 

Sjáumst í netheimum

 

19.3.2020

Fjarfundarbúnaður

Skólaþjónustan hefur notað „Teams“ frá því í haust og þar fara fram fjarfundir með stjórnendum, nemendum og eftir atvikum foreldrum þessa dagana. Við bjuggum til leiðbeiningar sem einn skólanna prjónaði svo við. Þær eru meðfylgjandi.

Leiðbeiningar TEAMS

Teams leiðbeiningar

10.3.2020

Vegna COVID-19

Allir geta veikst af COVID-19 þótt einstaklingar með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu af kórónaveiru séu útsettari en aðrir fyrir smiti. Í því ljósi er ráðlagt að kynna sér leiðbeiningar landlæknis: Leiðbeiningar landlæknis vegna COVID-19

Skilaboð frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til fræðsluaðila, í ljósi þess að neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir, eru skv. leiðbeiningum til skóla á bls. 70 í Landsáætlun sóttvarnarlæknis og ríkislögreglustjóra:

  • Skólar munu halda uppi starfsemi eins lengi og unnt er.
  • Markmið er að starfsmenn skóla haldi áfram störfum þó nemendur eða starfsfólk sé sent heim vegna sóttvarnaráðstafana.
  • Skipuleggja hlutverk kennara í fjarkennslu og heimanámi.
  • Skrá sérstaklega fjarvistir nemenda og starfsmanna vegna viðkomandi veikinda.
  • Hugað verði að því að nemendum í brotthvarfshættu bjóðist stuðningur námsráðgjafa þar sem því verður við komið.

Skólaþjónustan er reiðubúin að aðstoða ef kemur til þess að grípa til ráðstafana.

 

20.2.2020

Samráðsfundur leik- og grunnskóla

Þann 20. febrúar síðastliðinn hittust stjórnendur leik- og grunnskóla á svæði Skólaþjónustunnar til skrafs og ráðagerða.

Skólarnir kynntu samstarf milli skólastiga í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Lýsingar á samfellu milli leik- og grunnskóla skiluðu ígrundun um eigin framkvæmd, samstarf skólastiga innan hvers skólasvæðis sem og ábendingum, ráðleggingum og hugmyndum milli sveitarfélaga.

Seinni hluta fundarins skiptust fundarmenn á skoðunum og lagðar voru fram tillögur að dagskrá menntadags sem Skólaþjónustan stendur fyrir í upphafi næsta skólaárs.

 

Forvarnarfundur á svæði Skólaþjónustunnar

Seinnipart þessa sama dags fengum við Foreldrahús til að vera með fræðslufundi um forvarnir gegn tóbaksnotkun, áfengi og öðrum vímuefnum. Fræðslan hjá þeim Guðrúnu og Guðrúnu (fyrirlesararnir eru alnöfnur og báðar ráðgjafar hjá Foreldrahúsi) var mjög beinskeytt og var almenn ánægja með fundina. Annars vegar funduðu þær með starfsfólki allra skólanna og síðan með foreldrum á svæðinu. Upphaflega stóð til að funda einnig þann 19. febrúar en vegna veðurs þurfti að aflýsa. Fundunum var streymt og heppnaðist það vel.

Mæting á starfsmannafundinn var góð og ágætlega var mætt á foreldrafundinn þótt við hefðum viljað sjá þar fleiri því innleggið á erindi við alla foreldra og samfélagið allt. Einnig er nokkuð langt um liðið síðan síðast var boðið upp á forvarnafyrirlestur um þetta efni.

Við hvetjum alla foreldra og starfsfólk sem starfar með börnum og unglingum að vera vakandi og treysta böndin við krakkana til að geta brugðist við og veitt þeim stuðning varðandi líðan og einnig þegar hópþrýstingur gerir vart við sig.

6.2.2020

Til hamingju með daginn!

Dagur leikskólans er í dag 6. febrúar

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í dag og er þetta í 13. skipti sem deginum er fagnað formlega.

6. febrúar árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara samtök sín eða fyrir 70 árum. Þessi dagur er því merkilegur í sögu leikskóla.

Leikskólakennarar, stjórnendur leikskóla og starfsfólk á svæði Skólaþjónustunnar nota daginn til að vekja athygli á fagmennsku og því frábæra starfi sem unnið er í leikskólunum.

Dagurinn verður haldinn hátíðlegur og gerir hver leikskóli það með sínu sniði í dag eða á næstu dögum.

Upplagt er að deila myndum og frásögnum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #dagurleikskolans2020.

18.12.2019

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár


Látum fylgja opið bréf Sálstofunnar til jólasveinanna:

Kæru jólasveinar. Nú fer að styttast í að þið komið til byggða með glaðning í skóinn og því langar okkur að koma hugleiðingum okkar á framfæri.

Aðventan getur verið skrítinn tími fyrir börn; sum eru yfir sig spennt, önnur eru óróleg þegar rútínan fer úr skorðum og enn önnur kvíða fyrir þessum tíma. Á þessum skrítna tíma eruð þið einmitt að gefa börnum í skóinn og vorum við að velta fyrir okkur hver viðmiðin væru hjá ykkur varðandi hvort börn fengju í skóinn – eða hvort það væru viðmið?

Stundum höfum við heyrt talað um að börn þurfi að vera góð til að fá í skóinn. En málið er að við höfum hitt svakalega mörg börn og við vitum að öll börn eru góð. Þar með ættu öll börn að fá alltaf í skóinn ekki satt?

Ef þið ætlið að nota einhverskonar viðmið viljum við minna ykkur á að hafa þau þá skýr og sanngjörn þannig að börnin hafi tækifæri til standast væntingar ykkar. Hvernig væri t.d. að hafa viðmið um að börn fari í háttinn þegar þeim er sagt að gera það frekar en að fara í háttinn á einhverjum fyrir fram ákveðnum tíma? Er sanngjarnt að gefa ekki í skóinn ef barn missir stjórn á skapinu sínu í öllum þeim asa og spenningi sem getur fylgt þessum árstíma? Er sanngjarnt að barn fái ekki í skóinn ef það gleymir sér óvart, aðeins?

Foreldrar gleyma sér nefnilega stundum og fara að nota ykkur jólasveinana sem einhverskonar Grýlu á aðventunni (og við vitum að þið eruð ekkert líkir móður ykkar). Þá geta foreldrar t.d. sagt börnunum að jólasveinninn fylgist með hverju spori – og þá sérstaklega hverju feilspori – og þá komi mögulega ekkert í skóinn. Bara það að halda að þið fylgist með hverjum andardrætti barnanna getur skapa kvíða og spennu sem leiðir til erfiðrar hegðunar.

Ef foreldrar lesa þessi skilaboð þá minnum við þá líka á það að það er miklu skemmtilegra og ánægjulegra að skapa aðstæður sem hjálpa börnum að sýna æskilega hegðun, að koma vel fram við aðra og gera hluti sem láta þeim líða vel. Góðu börnin okkar geta nefnilega gleymt sér og sýnt af sér óæskilega hegðun og þá er nú gott að hafa foreldra sem minna á hver æskilega hegðunin er – og auðvitað hrósa börnunum þegar sú hegðun er sýnd. Og kannski er allt í lagi í þeim tilvikum að nefna að slík hegðun myndi örugglega gleðja jólasveinana?

Og eitt enn fyrst við erum að skrifa ykkur bréf. Ekki ruglast í skógjöfunum, foreldrar mega gefa allskonar í jólagjafir en í skóinn er gott að jólasveinninn gefi öllum börnum svipað svo börnin haldi nú ekki að þið gerið upp á milli.

Við höfum ofurtrú á ykkur kæru jólasveinar – gleðilega sleðaferð til byggða

10.12.2019

Til hamingju!

Þann 25. nóvember sl. hélt Félag sérkennara á Íslandi aðalfund og fræðsludag fyrir sérkennara og aðra sem sinna sérkennslu í leik- og grunnskólum. Skemmst er frá því að segja að kennsluefnið Orðagull fékk heiðursverðlaun félagins. Annar tveggja höfunda þess er Ásthildur Bj. Snorradóttir, verkefnastjóri þróunarverkefnisins Snemmtæk íhlutun í máli og læsi sem allir leikskólar á svæði Skólaþjónustunnar vinna að. Hinn höfundurinn er Bjartey Sigurðardóttir. Þær stöllur hafa bæði saman og sundur gefið út fjölbreytt kennsluefni sem örvar málþroska barna.  Til hamingju, Ásthildur og Bjartey!

07.10.2019

Snemmtæk íhlutun – mál og læsi

Þróunarverkefni í leikskólum Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu

Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu ásamt leikskólunum Laugalandi, Heklukoti á Hellu, Örk á Hvolsvelli, Mánalandi í Vík og Heilsuleikskólanum Kærabæ á Kirkjubæjarklaustri héldu sameiginlegan námskeiðsdag fyrir starfsfólk skólanna 30. ágúst síðastliðinn.

Dagurinn markaði upphaf vinnu við þróunarverkefnið „Snemmtæk íhlutun – mál og læsi“ en því mun ljúka árið 2021. Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur leiðir verkefnið í samstarfi við hóp starfsmanna frá leikskólunum fimm.

 

Ásthildur Bj. Snorradóttir

Grunnur þróunarverkefnisins er að efla færni nemenda í íslensku – ekki síst nemenda með annað móðurmál auk þess að efla lærdómssamfélagið og samvinnu við þá sem örva málþroska barnanna. Stefnt er að því að hver leikskóli eignist ítarlega handbók þar sem verkferlar málörvunar eru útfærðir. Meðal markmiða með verkefninu er að nemendur verði vel undirbúnir fyrir 1. bekk grunnskóla og samfella verði í námi milli skólastiga, í anda heildstæðrar skólastefnu.

Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu

 

 

 

20.08.2019

Nýr forstöðumaður Skólaþjónustu.

Nýr forstöðumaður, Þórunn Jóna Hauksdóttir, hefur verið ráðinn við Skólaþjónustuna. Edda G. Antonsdóttir hefur gengt starfinu allt frá stofnun, í ársbyrjun 2014, þegar Skólaskrifstofa Suðurlands var lögð niður.

Þórunn Jóna hefur leyfisbréf til kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi og framhaldsmenntun á sviði stjórnunar og stefnumótunar. Hún kenndi áður við grunn- og framhaldsskóla, en hefur frá árinu 2012 starfað í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Þórunn Jóna mun hefja störf hér hjá okkur þann 1. september nk. og er hún boðin hjartanlega velkomin til starfa.

 

 

20.07.2019

Frábær gjöf til Skólaþjónustunnar og leikskólanna.

Leikskólunum fimm á starfssvæði Skólaþjónustunnar barst á dögunum höfðingleg gjöf þegar Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur heimsótti Skóla-þjónustuna og færði henni og leikskólunum fimm á starfssvæðinu að gjöf mál- og talþjálfunarefnið Lærum og leikum með hljóðin. Efni þetta byggir m.a. á rannsóknum og fagþekkingu talmeinafræðinnar og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar.

Bryndís hefur starfað sem talmeinafræðingur á Íslandi í rúm 30 ár og samið og gefið út mikið og fjölbreytt efni til mál- og talþjálfunar. Með stuðningi nokkurra fyrirtækja, auk framlags Bryndísar sjálfrar fá allir leikskólar á Íslandi pakka af heildstæðu þjálfunarefni að gjöf til að nýta í starfi sínu með börnunum. Ýmislegt aukaefni sem styður við hljóðanámið fylgir með í skólapökkunum s.s. púsl, límmiðar, vinnusvuntur og smáforrit. Efnið kemur í fallegum töskum sem skólarnir fá til eignar. Bryndís mun fylgja efninu eftir með vefnámskeiðum sem verða auglýst síðar.

Auk þess sem efnið nýtist vel við þjálfun barna í leikskólanna er hægt að lána það heim til foreldra sem þess óska.

Þeir aðilar sem leggja þessu lofsverða framtaki lið og gera gjöfina mögulega eru  auk Raddlistar talmeinaþjónustufyrirtækis Bryndísar og fjölskyldu hennar: Marel, Lýsi, Ikea og hjónin Björgólfur Thor og Kristín Ólafsdóttir.

Þessi góða gjöf er mjög kærkomin og mun sannarlega nýtast vel í skólastarfinu, en nú í haust fer einmitt af stað sérstakt þróunarverkefni í leikskólunum fimm sem standa mun fram til vors 2021. Verkefnið, sem styrkt er myndarlega af Sprota-sjóði, hefur það að markmiði að efla málþroska nemendanna og undirbúa þá undir lestararnám í grunnskóla.

 

Skrifstofa Skólaþjónustunnar er lokuð vegna sumarleyfa frá 1. – 31. júlí.

Opnum aftur fimmtudaginn 1. ágúst.

 

 

 

11.04.2019

Þróunarverkefni í leikskólunum á starfssvæði Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur –Skaftafellssýslu.

Í ágúst nk. fer af stað þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun í leikskólum sem tilheyra Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, með sérstakri áhersla á málþroska og undirbúning undir lestur.
Verkefnið mun væntanlega standa í 1 ½ – 2 ár og hefur Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur verið ráðin verkefnisstjóri, í samvinnu við sérfræðinga Skóla-þjónustunnar. Sprotasjóður hefur úthlutað verkefninu styrk að upphæð kr. 2.250.000.
Um er að ræða samstarfsverkefni allra leikskólanna fimm á starfssvæði Skóla-þjónustunnar, leikskólans á Laugalandi, leikskólans Heklukots á Hellu, leikskólans Arkar á Hvolsvelli, leikskólans Mánalands í Vík og heilsuleikskólans Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri. Samtals eru þessir fimm leikskólar með ca 260 nemendur. Verkefnið hefst formlega með heilsdags námskeiði alls starfsfólks leikskólanna í ágúst nk.
Markmið með verkefninu er m.a. :
– að styrkja og efla málþroska leikskólabarna með áherslu á læsi í víðum skilningi
– að öll börn í leikskólum sem tilheyra starfssvæði Skólaþjónustunnar nái hámarksárangri hvað varðar íslenskt mál, tal og boðskipti og undirbúning undir lestur,
– að auka samstarf við sérfræðinga og foreldra hvað varðar málörvun og læsi.
– að auka fræðslu á þessu sviði til foreldra.

10.apríl 2019

Stóra upplestrarkeppnin á skólaþjónustusvæði Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu auk Vestmannaeyja.

Þann 8. apríl sl. var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir grunnskólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Grunnskóla Vestmannaeyja haldin í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Skólarnir sex sem þátt tóku í lokahátíðinni voru Grunnskólinn á Helli, Grunnskóli Vestmanna-eyja, Hvolsskóli, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli og Víkurskóli.
Keppendur voru 13 talsins, en að auki var nokkur fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.
Nemendur Hvolsskóla úr valinu Þjóðleikur fluttu lög úr leikritinu Dúkkulísu, milli þess sem
keppendur lásu upp ljóð og sögu og í hléi voru bornar fram glæsilegar kaffiveitingar.
Keppendurnir 13 stóðu sig með mikilli prýði og var dómurum vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara.
Á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

1. sæti Lilja Dögg Ágústdóttir Hvolsskóla
2. sæti Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja
3. sæti Sunna Hlín Borgþórsdóttir Laugalandsskóla


Myndatexti:
Frá vinstri: Kristín Sigfúsdóttir aðstoðarskólastjóri Laugalandsskóla, Sunna Hlín Borgþórsdóttir Lauga-landsskóla (3. sæti), Jóhanna Alfreðsdóttir kennari Grunnskóla Vestmannaeyja, Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja (2. sæti), Anna Kristín Guðjónsdóttir kennari Hvolsskóla, Lilja Dögg Ágústs-dóttir Hvolsskóla (1. sæti).

Tímabundnar breytingar á sálfræðiþjónustu.

Ragnar S. Ragnarsson sálfræðingur verður í ársleyfi frá störfum við Skólaþjónustuna frá 1. des. 2018, til 1. desember 2019.
Ekki hefur enn tekist að ráða staðgengil fyrir hann þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.
Vonandi tekst sem fyrst að manna stöðuna, en þangað til munum við kaupa sálfræðiþjónustu af Sálstofunni í Kópavogi.
Þar starfa nokkrir sálfræðingar sem sérhæfa sig í ákveðnum málaflokkum og aldri barna.
Sálfræðingar frá Sálstofunni, gjarnan 2 – 3 í senn, munu verða hér hjá okkur nokkra daga í mánuði og sinna greiningum
og ráðgjöf við foreldra og skóla. Þeir verða fyrst á ferðinni um miðjan janúar og munu þá heimsækja nokkra leik- og grunnskóla
og sinna þeim málum sem þegar hafa borist beiðnir um.