Fréttir

09.02.2017

Niðurstöður PISA-könnunar frá árinu 2015.

Nú hafa Skólaþjónustunni borist niðurstöður úr PISA-könnuninni frá árinu 2015, fyrir skólana fimm á okkar þjónustusvæði.

PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms.

Vegna smæðar eru ekki gefnar upp niðurstöður einstakra skóla, heldur eingöngu útkoma svæðisins í heild. Af sömu ástæðu, þ.e. smæðar hópsins, eru niðurstöðurnar settar fram með fyrirvörum um áreiðanleika og há vikmörk.

Við höfum því miður ekki undir höndum niðurstöðurnar frá 2012 til samanburðar, þar sem Skólaþjónustan var ekki tekin til starfa þá og okkur hefur ekki enn tekist að fá þær upplýsingar frá Menntamálstofnun, en unnið er í málinu.

Það er afar ánægjulegt að sjá (þó með fyrrgreindum fyrirvörum um áreiðanleika) að krakkarnir okkar voru vel yfir landsmeðaltali í öllum þremur greinum PISA, læsi á náttúrusviði, stærðfræði og lesskilningi og einnig yfir OECD-meðaltali í öllum greinum.

Þetta eru sannarlega góðar fréttir, ekki síst í ljósi umræðunnar í fjölmiðlum nú á haustdögum þar sem ítrekað kom fram að niðurstöður skóla á landsbyggðinni hefðu almennt verið mjög slakar og langt fyrir neðan niðurstöður skólanna í stóru sveitarfélögunum.

Í öllum skólunum okkar hefur á undanförnum árum verið lögð mikil áhersla á lestur og lestrar-færni, m.a. lesskilning. M.a. hefur í auknum mæli verið kallað eftir samstafi við foreldra og forráðamenn varðandi lestrarþjálfun barna sinna. Við höfum einnig fylgst vel með því sem skólar annarsstaðar hafa verið að gera í þessum efnum og gert ýmsar ráðstafanir út frá því, m.a. tekið upp skimanir í lestri í 3., 6. og 9. bekk sem unnið er síðan út frá í kennslunni.

Þó þessar niðurstöður séu settar fram með fyrrgreindum fyrirvörum, getum við samt litið á þær sem vísbendingu um að við séum á réttri leið. Ég vona sannarlega að þær verði hvatning til starfsfólks skólanna og foreldra til frekari dáða og áframhalds á þessari braut.

 

12.09.2016

Námskeið fyrir starfsfólk leikskóla.

Þessa dagana er í gangi námskeið fyrir starfsfólk leikskóla á starfssvæði Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Námskeiðið er ætlað nýju, ófaglærðu starfsfólki leikskólanna, en einnig öðru starfsfólki sem rifja vill upp ýmislegt er lýtur að innra starfi skólanna. Sautján starfsmenn úr öllum fimm leikskólunum á svæðinu sækja námskeiðið að þessu sinni, en gert er ráð fyrir að endurtaka það á vorönninni.

Fjallað er um ýmsa þætti sem snúa að leikskólastarfinu, m.a. lagaumhverfi, aðalnámskrá leikskóla, meðferð trúnaðarupplýsinga, vinnubrögð í leikskóla, dagskipulag, foreldrasamstarf, kennsluhugmyndir og réttindi og skyldur starfsfólks.  Að auki er rætt um samskipti milli allra þeirra aðila sem að leikskólanum koma, nemenda, foreldra, stjórnenda og annarra starfsmanna. Einnig er farið yfir hvað felst í starfi leikskólastarfsfólks og verksvið hvers og eins krufið. Gerð er grein fyrir hlutverki og verklagi starfsmanna Skólaþjónustunnar í þjónustu við leikskólana, börn og foreldra.

Námskeiðið, sem er í fjórum hlutum, þrjár kennslustundir í senn, fer fram í fjarfundastofu Hvolsskóla á Hvolsvelli. Það stendur frá 6. september til 4. október og er í formi fyrirlestra, verkefna og umræðna. Í tvö skipti verður sent út í fjarfundabúnaði til Víkur og á Klaustur.

Kennarar á námskeiðinu eru úr hópi starfsmanna Skólaþjónustunnar, þau Halldóra Guðlaug Helgadóttir  leikskólaráðgjafi, Ragnar S. Ragnarsson sálfræðingur og Sigríður Arndís Þórðardóttir talmeinafræðingur.

 

 

 

30.08.2016

Endurskoðun tilvísunareyðublaða og gátlista

Búið er að endurskoða öll tilvísunareyðublöð og gátlista Skólaþjónustunnar og setja nýjar útgáfur hér á heimssíðuna undir liðunum Eyðublöð og Gátlistar. Þar með eru gömlu eyðublöðin fallin úr gildi og eru þeir sem vísa málum til stofnunarinnar vinsamlega beðnir um að hafa það í huga.

 

30.08.2016

Endurskoðun bæklinga

Nú hafa bæklingarnir okkar verið uppfærðir og endurútgefnir. Um er að ræða átta upplýsinga-bæklinga, ætlaða starfsfólki leik- og grunnskóla og foreldrum. Þeir lýsa m.a. verkefnum og starfssviði sérfræðinga Skólaþjónustunnar, þjónustunni sem í boði er og hvernig nálgast má hana. Bæklingarnir bera heitin:

  • Einstaklingsnámskrárgerð.
  • Teymisvinna í leik- og grunnskólum.
  • Um tilvísanir til Skólaþjónustunnar.
  • Þjónusta kennsluráðgjafa.
  • Þjónusta leikskólaráðgjafa.
  • Þjónusta náms- og starfsráðgjafa.
  • Þjónusta sálfræðings.
  • Þjónusta talmeinafræðings.

Bæklingarnir liggja frammi í öllum leik- og grunnskólum á svæðinu, aðgengilegir starfsfólki og foreldrum.

29.08.2016

Námskeið og fræðslufundir á vegum Skólaþjónustunnar á haustönn 2016.

Námskeiðs- og fræðslufundaáætlun haustannar 2016 hefur nú litið dagsins ljós og er komin hér inn á heimasíðuna undir Námskeið og fræðslufundir.
Um er að ræða níu styttri og lengri námskeið og fundi um margvísleg, fjölbreytt málefni, sem dreifast á alla önnina, frá ágúst til nóvember. Við höfum lagt mikla vinnu í að gera framboðið sem fjölbreyttast og vonum að allir finni þarna eitthvað við hæfi, en námskeiðin eru opin öllu skólafólki og foreldrum.
Hugmyndir um námskeið eru ávallt vel þegnar og erum við þegar byrjuð að leggja grunn að dagskrá vorannarinnar. Við hvetjum starfsfólk leik- og grunnskóla á svæðinu til að senda okkur góðar hugmyndir og óskir um áhugavert efni sem vert væri að taka til umfjöllunar.
Við hvetjum einnig til að skráningar á námskeiðin fari fram innan settra tímamarka, því hafi lágmarksþátttakendafjöldi ekki náðst á auglýstum lokaskráningardegi verða námskeiðin felld niður.