Fréttir

11.04.2019

Þróunarverkefni í leikskólunum á starfssvæði Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur –Skaftafellssýslu.

Í ágúst nk. fer af stað þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun í leikskólum sem tilheyra Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu, með sérstakri áhersla á málþroska og undirbúning undir lestur.
Verkefnið mun væntanlega standa í 1 ½ – 2 ár og hefur Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur verið ráðin verkefnisstjóri, í samvinnu við sérfræðinga Skóla-þjónustunnar. Sprotasjóður hefur úthlutað verkefninu styrk að upphæð kr. 2.250.000.
Um er að ræða samstarfsverkefni allra leikskólanna fimm á starfssvæði Skóla-þjónustunnar, leikskólans á Laugalandi, leikskólans Heklukots á Hellu, leikskólans Arkar á Hvolsvelli, leikskólans Mánalands í Vík og heilsuleikskólans Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri. Samtals eru þessir fimm leikskólar með ca 260 nemendur. Verkefnið hefst formlega með heilsdags námskeiði alls starfsfólks leikskólanna í ágúst nk.
Markmið með verkefninu er m.a. :
– að styrkja og efla málþroska leikskólabarna með áherslu á læsi í víðum skilningi
– að öll börn í leikskólum sem tilheyra starfssvæði Skólaþjónustunnar nái hámarksárangri hvað varðar íslenskt mál, tal og boðskipti og undirbúning undir lestur,
– að auka samstarf við sérfræðinga og foreldra hvað varðar málörvun og læsi.
– að auka fræðslu á þessu sviði til foreldra.

10.apríl 2019

Stóra upplestrarkeppnin á skólaþjónustusvæði Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu auk Vestmannaeyja.

Þann 8. apríl sl. var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir grunnskólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Grunnskóla Vestmannaeyja haldin í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Skólarnir sex sem þátt tóku í lokahátíðinni voru Grunnskólinn á Helli, Grunnskóli Vestmanna-eyja, Hvolsskóli, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli og Víkurskóli.
Keppendur voru 13 talsins, en að auki var nokkur fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.
Nemendur Hvolsskóla úr valinu Þjóðleikur fluttu lög úr leikritinu Dúkkulísu, milli þess sem
keppendur lásu upp ljóð og sögu og í hléi voru bornar fram glæsilegar kaffiveitingar.
Keppendurnir 13 stóðu sig með mikilli prýði og var dómurum vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara.
Á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

1. sæti Lilja Dögg Ágústdóttir Hvolsskóla
2. sæti Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja
3. sæti Sunna Hlín Borgþórsdóttir Laugalandsskóla


Myndatexti:
Frá vinstri: Kristín Sigfúsdóttir aðstoðarskólastjóri Laugalandsskóla, Sunna Hlín Borgþórsdóttir Lauga-landsskóla (3. sæti), Jóhanna Alfreðsdóttir kennari Grunnskóla Vestmannaeyja, Gabríel Ari Davíðsson Grunnskóla Vestmannaeyja (2. sæti), Anna Kristín Guðjónsdóttir kennari Hvolsskóla, Lilja Dögg Ágústs-dóttir Hvolsskóla (1. sæti).

Tímabundnar breytingar á sálfræðiþjónustu.

Ragnar S. Ragnarsson sálfræðingur verður í ársleyfi frá störfum við Skólaþjónustuna frá 1. des. 2018, til 1. desember 2019.
Ekki hefur enn tekist að ráða staðgengil fyrir hann þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.
Vonandi tekst sem fyrst að manna stöðuna, en þangað til munum við kaupa sálfræðiþjónustu af Sálstofunni í Kópavogi.
Þar starfa nokkrir sálfræðingar sem sérhæfa sig í ákveðnum málaflokkum og aldri barna.
Sálfræðingar frá Sálstofunni, gjarnan 2 – 3 í senn, munu verða hér hjá okkur nokkra daga í mánuði og sinna greiningum
og ráðgjöf við foreldra og skóla. Þeir verða fyrst á ferðinni um miðjan janúar og munu þá heimsækja nokkra leik- og grunnskóla
og sinna þeim málum sem þegar hafa borist beiðnir um.

 

Námskeiðs- og fræðslufundaáætlun vor 2018
15.01.2018
Fræðslufunda- og námskeiðsáætlun Skólaþjónustunnar fyrir vorönn 2018 hefur nú verið send út í alla leik- og grunnskóla. Þar er að finna tilboð um 11 styttri og lengri viðburði sem áætlað er að fram fari mánuðina febrúar – apríl.
Eins og venjan er hafa óskir starfsfólks skólanna mest að segja um val á efni og vonum við að allir finni hér eitthvað við sitt hæfi.
Skráning fer fram hér á heimasíðunni undir hnappnum námskeið og fræðslufundir. Foreldrar geta einnig skráð sig á einstaka viðburði.

Námskeiðs- og fræðslufundaáætlun vor 2018

09.02.2017

Niðurstöður PISA-könnunar frá árinu 2015.

Nú hafa Skólaþjónustunni borist niðurstöður úr PISA-könnuninni frá árinu 2015, fyrir skólana fimm á okkar þjónustusvæði.

PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms.

Vegna smæðar eru ekki gefnar upp niðurstöður einstakra skóla, heldur eingöngu útkoma svæðisins í heild. Af sömu ástæðu, þ.e. smæðar hópsins, eru niðurstöðurnar settar fram með fyrirvörum um áreiðanleika og há vikmörk.

Við höfum því miður ekki undir höndum niðurstöðurnar frá 2012 til samanburðar, þar sem Skólaþjónustan var ekki tekin til starfa þá og okkur hefur ekki enn tekist að fá þær upplýsingar frá Menntamálstofnun, en unnið er í málinu.

Það er afar ánægjulegt að sjá (þó með fyrrgreindum fyrirvörum um áreiðanleika) að krakkarnir okkar voru vel yfir landsmeðaltali í öllum þremur greinum PISA, læsi á náttúrusviði, stærðfræði og lesskilningi og einnig yfir OECD-meðaltali í öllum greinum.

Þetta eru sannarlega góðar fréttir, ekki síst í ljósi umræðunnar í fjölmiðlum nú á haustdögum þar sem ítrekað kom fram að niðurstöður skóla á landsbyggðinni hefðu almennt verið mjög slakar og langt fyrir neðan niðurstöður skólanna í stóru sveitarfélögunum.

Í öllum skólunum okkar hefur á undanförnum árum verið lögð mikil áhersla á lestur og lestrar-færni, m.a. lesskilning. M.a. hefur í auknum mæli verið kallað eftir samstafi við foreldra og forráðamenn varðandi lestrarþjálfun barna sinna. Við höfum einnig fylgst vel með því sem skólar annarsstaðar hafa verið að gera í þessum efnum og gert ýmsar ráðstafanir út frá því, m.a. tekið upp skimanir í lestri í 3., 6. og 9. bekk sem unnið er síðan út frá í kennslunni.

Þó þessar niðurstöður séu settar fram með fyrrgreindum fyrirvörum, getum við samt litið á þær sem vísbendingu um að við séum á réttri leið. Ég vona sannarlega að þær verði hvatning til starfsfólks skólanna og foreldra til frekari dáða og áframhalds á þessari braut.