Fréttir

Tímabundnar breytingar á sálfræðiþjónustu.

Ragnar S. Ragnarsson sálfræðingur verður í ársleyfi frá störfum við Skólaþjónustuna frá 1. des. 2018, til 1. desember 2019.
Ekki hefur enn tekist að ráða staðgengil fyrir hann þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.
Vonandi tekst sem fyrst að manna stöðuna, en þangað til munum við kaupa sálfræðiþjónustu af Sálstofunni í Kópavogi.
Þar starfa nokkrir sálfræðingar sem sérhæfa sig í ákveðnum málaflokkum og aldri barna.
Sálfræðingar frá Sálstofunni, gjarnan 2 – 3 í senn, munu verða hér hjá okkur nokkra daga í mánuði og sinna greiningum
og ráðgjöf við foreldra og skóla. Þeir verða fyrst á ferðinni um miðjan janúar og munu þá heimsækja nokkra leik- og grunnskóla
og sinna þeim málum sem þegar hafa borist beiðnir um.

 

 

Persónuverndarfulltrúi
Persónuverndarfulltrúi Skólaþjónustunnar er:
Dattaca Laps ehf.
Grandagarði 16, 101 Reykjavík
Netfang: dpo@dattacalabs.com

 

 

Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu auglýsir laust starf sálfræðings í leik- og grunnskólum.

 Staða sálfræðings hjá Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu er laus til umsóknar. Um er að ræða 80 -100% stöðu í afleysingu, til eins árs.

Starfsstöðin er á Hvolsvelli þar sem sálfræðingur vinnur í þverfaglegu samstarfi með öðrum sérfræðingum, leikskólaráðgjafa, kennsluráðgjafa grunnskóla og náms- og starfsráðgjafa. Á svæðinu eru fimm leikskólar og fimm grunnskólar með u.þ.b. 780 börnum.

Gert er ráð fyrir að viðkomandi hefji störf þann 1. desember nk., eða eftir samkomulagi.

Starfssvið sálfræðings

  • Ráðgjöf, stuðningur og fræðsla til foreldra barna og starfsfólks leik- og grunnskóla.
  • Þverfaglegt samstarf við aðra sérfræðinga innan og utan stofnunarinnar og seta í teymum um einstök börn innan skólanna.
  • Sálfræðilegar athuganir og greiningar á börnum, ráðgjöf í kjölfar greininga og eftirfylgd mála.
  • Þátttaka í fræðslufundum og námskeiðahaldi fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Sálfræðimenntun og réttindi til að starfa sem sálfræðingur.
  • Frumkvæði, ábyrgð og sjálfstæði í vinnubrögðum.
  • Færni í mannlegum samskiptum og þverfaglegu samstarfi.

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningi Sálfræðingafélags Íslands og Sambands ísl. Sveitarfélaga

Umsóknarfrestur er til 15. október nk

Umsóknir sendist í pósti á Skólaþjónusta Rang. og V-Skaft., Austurvegi 4, 860 Hvolsvelli, eða í tölvupósti á netfangið edda@skolamal.is. Með umsókn þarf að fylgja ferilsskrá um menntun og fyrri störf. Frekari upplýsingar veitir Edda G. Antonsdóttir forstöðumaður Skólaþjónustu í netfanginu (edda@skolamal.is) eða í síma 487-8107 / 862-7522.

 

 

Þann 5. apríl sl. fór fram lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir grunnskólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auk Vestmannaeyja. Víkurskóli var gestgjafi að þessu sinni og var hátíðin haldin á Hótel Kötlu að Höfðabrekku í Mýrdal.

Skólarnir sem þátt tóku auk Víkurskóla voru Grunnskólinn á Hellu, Hvolsskóli, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli og Grunnskóli Vestmannaeyja.

Keppendur voru 13 talsins, en að auki var fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.

Staðarhaldarar á Hótel Kötlu tóku vel á móti keppendum og fararstjórum og buðu þeim upp á ljúffenga súpu við komu á staðinn.

Nemendur Tónlistarskóla Mýrdalshrepps sáu um tónlistaratriði og í hléi voru bornar fram glæsilegar kaffiveitingar.

Veðrið var okkur hliðholt og fært í Landeyjahöfn svo hópurinn frá Vestmannaeyjum komst fram og til baka samdægurs, en ferðalagið til okkar á Stóru upplestrarkeppnina hefur stundum tekið Eyjakrakkana allt upp í þrjá daga.

Allir keppendurnir 13 stóðu sig með mikilli prýði og greinilegt er að vel hefur verið unnið að þjálfun í skólunum í vetur.

Eins og oft áður var dómnefndinni vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara, en á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

  1. sæti Herborg Sindradóttir                                     Grunnskóla Vestmannaeyja
  2. sæti Karl Anders Þórólfur Karlsson                       Víkurskóla
  3. sæti Jón Grétar Jónasson                                     Grunnskóla Vestmannaeyja

 

Sigurvegarar keppninnar ásamt kennurum sínum: (frá vinstri) Þóra Guðrún Þórarinsdóttir kennari Grunnskóla Vestmannaeyja, Jón Grétar Jónasson Grunnskóla Vestmannaeyja 3. sæti, Herborg Sindradóttir Grunnskóla Vestmannaeyja 1. sæti, Karl Anders Þórólfur Karlsson Víkurskóla, 2. sæti og Elín Einarsdóttir kennari Víkurskóla

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Námskeiðs- og fræðslufundaáætlun vor 2018
15.01.2018
Fræðslufunda- og námskeiðsáætlun Skólaþjónustunnar fyrir vorönn 2018 hefur nú verið send út í alla leik- og grunnskóla. Þar er að finna tilboð um 11 styttri og lengri viðburði sem áætlað er að fram fari mánuðina febrúar – apríl.
Eins og venjan er hafa óskir starfsfólks skólanna mest að segja um val á efni og vonum við að allir finni hér eitthvað við sitt hæfi.
Skráning fer fram hér á heimasíðunni undir hnappnum námskeið og fræðslufundir. Foreldrar geta einnig skráð sig á einstaka viðburði.

Námskeiðs- og fræðslufundaáætlun vor 2018

Námskeið- og fræðslufundaáætlun haust 2017

Námskeiðs- og fræðslufundaáætlun vor 2017

STÓRA UPPLESTRARKEPPNIN.

Stóra upplestrarkeppnin 2017
Frá vinstri: Christian Dagur Kristinsson Laugalandsskóla, Eva María Þrastardóttir Hvolsskóla og Bertha Þorsteinsdóttir Grunnskóla Vestmannaeyja.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir skólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auk Vestmannaeyja fór fram þann 30. mars sl.
Um er að ræða sex skóla, Grunnskólann á Hellu, Hvolsskóla, Kirkjubæjarskóla, Laugalands-skóla, Víkurskóla og Grunnskóla Vestmannaeyja.
Keppendur voru 13 talsins, en að auki var fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.
Umgjörðin var ekki af verri endanum, en hátíðin fór að þessu sinni fram í Eldheimum í Vest-mannaeyjum og höfðu þeir Eyjamenn veg og vanda af allri framkvæmd sem var til mikillar fyrirmyndar. Nemendur Tónlistarskóla Vestmannaeyja sáu um tónlistaratriði og boðið var upp á ljúffengar veitingar í hléi.
Veðrið var upp á sitt besta þennan dag og gátu keppendur og fylgdarlið þeirra ofan af landi farið fljúgandi frá Bakkavelli í Landeyjum.
Allir krakkarnir stóðu sig mjög vel og bar frammistaða þeirra sannarlega vitni góðri vinnu og þjálfun í skólunum í vetur.
Eins og oft áður var dómnefndinni vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara, en á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

1. sæti Eva María Þrastardóttir Hvolsskóla
2. sæti Christian Dagur Kristinsson Laugalandsskóla
3. sæti Bertha Þorsteindóttir Grunnskóla Vestmannaeyja

09.02.2017

Niðurstöður PISA-könnunar frá árinu 2015.

Nú hafa Skólaþjónustunni borist niðurstöður úr PISA-könnuninni frá árinu 2015, fyrir skólana fimm á okkar þjónustusvæði.

PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms.

Vegna smæðar eru ekki gefnar upp niðurstöður einstakra skóla, heldur eingöngu útkoma svæðisins í heild. Af sömu ástæðu, þ.e. smæðar hópsins, eru niðurstöðurnar settar fram með fyrirvörum um áreiðanleika og há vikmörk.

Við höfum því miður ekki undir höndum niðurstöðurnar frá 2012 til samanburðar, þar sem Skólaþjónustan var ekki tekin til starfa þá og okkur hefur ekki enn tekist að fá þær upplýsingar frá Menntamálstofnun, en unnið er í málinu.

Það er afar ánægjulegt að sjá (þó með fyrrgreindum fyrirvörum um áreiðanleika) að krakkarnir okkar voru vel yfir landsmeðaltali í öllum þremur greinum PISA, læsi á náttúrusviði, stærðfræði og lesskilningi og einnig yfir OECD-meðaltali í öllum greinum.

Þetta eru sannarlega góðar fréttir, ekki síst í ljósi umræðunnar í fjölmiðlum nú á haustdögum þar sem ítrekað kom fram að niðurstöður skóla á landsbyggðinni hefðu almennt verið mjög slakar og langt fyrir neðan niðurstöður skólanna í stóru sveitarfélögunum.

Í öllum skólunum okkar hefur á undanförnum árum verið lögð mikil áhersla á lestur og lestrar-færni, m.a. lesskilning. M.a. hefur í auknum mæli verið kallað eftir samstafi við foreldra og forráðamenn varðandi lestrarþjálfun barna sinna. Við höfum einnig fylgst vel með því sem skólar annarsstaðar hafa verið að gera í þessum efnum og gert ýmsar ráðstafanir út frá því, m.a. tekið upp skimanir í lestri í 3., 6. og 9. bekk sem unnið er síðan út frá í kennslunni.

Þó þessar niðurstöður séu settar fram með fyrrgreindum fyrirvörum, getum við samt litið á þær sem vísbendingu um að við séum á réttri leið. Ég vona sannarlega að þær verði hvatning til starfsfólks skólanna og foreldra til frekari dáða og áframhalds á þessari braut.