Umdæmi Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu er hið víðfemasta á landinu. Það nær frá Þjórsá í vestri að Lómagnúpi í austri. Aðildarsveitarfélögin eru fimm (frá vestri til austurs): Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur.

Í hverju sveitarfélagi eru leikskóli og grunnskóli: Að Laugalandi í Holtum, á Hellu og Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri.

Fjórar fræðslunefndir eru starfræktar á svæðinu: Oddi bs. er fyrir skólastarf í Ásahreppi og Rangárþingi ytra og svo ein í hverju hinna sveitarfélaganna.

Sveitarfélög

Ásahreppur er í Rangárvallasýslu. Hreppurinn varð til 11. júlí 1892 þegar Holtamannahreppi var skipt í tvennt, í Holtahrepp hið efra og Ásahrepp hið neðra. Ásahreppi sjálfum var skipt í tvennt 1. janúar 1936 og varð neðri hlutinn að Djúpárhreppi en sá efri hélt nafninu óbreyttu. Þjórsá rennur við hreppamörkin og sýslumörkin í vestri. Íbúar búa í dreifbýli.

Rangárþing ytra er í Rangárvallasýslu. Það varð til árið 2002 við sameiningu Djúpárhrepps, Holta- og Landssveitar og Rangárvallahrepps. Sveitarfélagið afmarkast að mestu af Þjórsá að vestan, vatnaskilum að norðan að Vatnajökli og Tungnaá. Að sunnan fylgja mörkin Mýrdalsjökli að Eystri-Rangá. Þéttbýliskjarnar í sveitarfélaginu eru Hella, Þykkvibær og Rauðalækur.

Rangárþing eystra er í Rangárvallasýslu. Það varð til 9. júní 2002 við sameiningu sex hreppa: Hvolhrepps, Fljótshlíðarhrepps, Austur-Landeyjahrepps, Vestur-Landeyjahrepps, Austur-Eyjafjallahrepps og Vestur-Eyjafjallahrepps. Sveitarfélagið nær frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Þéttbýliskjarni þess er Hvolsvöllur.

Mýrdalshreppur varð til í ársbyrjun 1984 við sameiningu Dyrhólahrepp og Hvammshrepp. Hreppurinn afmarkast af Jökulsá á Sólheimasandi að vestan og Blautukvísl á Mýrdalssandi að austan. Þéttbýliskjarni sveitarfélagsins er Vík. 

Skaftárhreppur varð til árið 1990 við sameiningu fimm hreppa: Hörgslands-, Kirkjubæjar-, Leiðvalla-, Skaftártungu- og Álftavershrepps. Hreppurinn er austurhluti Vestur-Skaftafellssýslu og afmarkast af Blautukvísl á Mýrdalssandi í vestri og Sandgígjukvísl á Skeiðarársandi í austri. Þéttbýliskjarni sveitarfélagsins er Kirkjubæjarklaustur.