Breytingar á aðalnámskrá leikskóla

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun halda fundi hringinn í kringum landið til að kynna breytingar á aðalnámskrá leikskóla sem taka gildi 1. september næstkomandi. 

Breytingarnar skýra nánar hlutverk leiksins sem námsleið leikskólans og hvernig meta megi með reglubundnum hætti, og með virkri þátttöku barna, viðhorf, líðan og stöðu þeirra.

Breytingarnar taka gildi
1. september næstkomandi

Um er að ræða breytingar þar sem aukin áhersla er lögð á mikilvægi þess að mæta beri hverju og einu barni út frá menningarbakgrunni þeirra og að námsumhverfi skóla henti öllum börnum sem þar stunda leik og nám. Þá er áréttuð nauðsyn þess að gagnkvæmur skilningur ríki milli foreldra og starfsfólks leikskóla á samspili náms og vellíðunar barna. Þá bætist við vísun til þess að í leikskólum skuli leggja grunn að íslenskunámi barna og veita þeim ríkuleg tækifæri til að efla tungumálafærni sína í daglegu starfi og leik, og að bera skuli virðingu fyrir fjölbreyttum tungumálum og leita leiða til að styðja við móðurmál barna og virkt fjöltyngi í daglegu starfi.

Aðdragandi breytinganna

Starfshópur þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis um styrkingu leikskólastigsins skilaði skýrslu til ráðherra í maí 2021 þar sem lagt var til að kaflar 7, 9 og 10 í aðalnámskrá leikskóla yrðu endurskoðaðir. Starfshópur mennta- og barnamálaráðuneytis um endurskoðun á aðalnámskrá leikskóla hefur nú skilað af sér tillögum að endurskoðaðri aðalnámskrá þar sem finna má nánari skýringar á hlutverki leiksins sem námsleið leikskólans og hvernig meta megi með reglubundnum hætti, með virkri þátttöku barna, viðhorf, líðan og stöðu þeirra. Í starfshópnum sátu auk fulltrúa mennta- og barnamálaráðuneytis fulltrúar Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum, Kennaradeildar Háskólans á Akureyri, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Frekari upplýsingar má finna í samráðsgátt, sjá meðfylgjandi slóð

http://<https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3345


Björk Óttarsdóttir og Guðrún Alda Harðardóttir munu kynna helstu breytingar á eftirfarandi stöðum: