Haldin var uppskeruhátíð þann 17. september vegna útgáfu handbóka um snemmtæka íhlutun í máli og læsi leikskólabarna
Föstudaginn 17. september síðastliðinn buðu leikskólarnir Laugaland, Heklukot, Örk, Mánaland og Heilsuleikskólinn Kæribær til uppskeruhátíðar, í tengslum við þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun – mál og læsi, að Heimalandi undir Eyjafjöllum. Leikskólarnir buðu gestum upp á kræsingar og kynningar á vinnu við handbækur. Verkefnastjóri var Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur, ásamt Halldóru Guðlaugu leikskólaráðgjafa Skólaþjónustunnar.
Leikskólarnir ræddu hvernig unnið verður áfram að því að stofnanafesta verkefnið í leikskólunum fimm og höfðu gestir að orði að handbókarvinnan og þær hugmyndir um framhaldið sem kynntar voru, bæru með sér mikinn metnað og að þetta væri góð lyftistöng fyrir leikskólana.
Handbækur leikskólanna
Leikskólarnir skipuðu sinni vinnuhóp sem stýrði vinnu við handbækurnar, fjöldi funda voru haldnir bæði sameiginlegir með öllum vinnuhópum leikskólanna fimm. Einnig funduðu hóparnir innan sinna leikskóla og leituðust við að kynna verkefnið fyrir samstarfsfólki sínu. Eitt af því sem kom í ljós var að með samvinnu sem þessari styrktist lærdómssamfélag hvers leikskóla og jafnframt varð til samvinna og samstarf þvert á leikskólana sem án efa mun halda áfram í einhverri mynd.
Afurð verkefnisins er handbók fyrir hvern leikskóla sem unnin var samkvæmt aðgerðaráætlun og handbókarramma verkefnisins þar sem sérstök áhersla var lögð á að virkja allt starfsfólk leikskólans til þátttöku og að hugmyndafræði og sérstaða hvers leikskóla kæmi skýrt fram. Í handbókunum kemur fram hvernig hver leikskóli flokkar og nýtir á markvissan hátt málörvunarefni í leik og starfi. Verkferlar og vinnulag var gert skýrara ásamt uppbygginu málörvunarstunda og mati á árangri. Einnig var leitast við að efla leiðtogahlutverk leikskólanna þegar kemur að snemmtækri íhlutun vegna málþroska og undirstöðuþátta fyrir læsi leikskólabarnaHver leikskóli fyrir sig skrifaði handbók þar sem kemur fram sérstaða hvers leikskóla og hvernig unnið verður með snemmtæka íhlutun hvað varðar mál og læsi.
Hér fyrir neðan eru slóðir á handbækur leikskólanna
Leikskólinn Örk – Snemmtæk íhlutun í máli og læsi
Leikskólinn Mánaland – Þróunarverkefnið snemmtæka íhlutun – mál og læsi
Heilsuleikskólinn Kæribær – Snemmtæk íhlutun í máli og læsi
Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellsýslu ásamt Ásthildi Bj. Snorradóttur vill að lokum þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn til að handbækurnar yrðu sem bestar úr garði gerðar. Leikskólabörn munu njóta afraksturs vinnunnar nú og til framtíðar.
Lengi býr að fyrstu gerð