Eldri fréttir

STÓRA UPPLESTRARKEPPNIN.

Stóra upplestrarkeppnin 2017
Frá vinstri: Christian Dagur Kristinsson Laugalandsskóla, Eva María Þrastardóttir Hvolsskóla og Bertha Þorsteinsdóttir Grunnskóla Vestmannaeyja.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir skólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auk Vestmannaeyja fór fram þann 30. mars sl.
Um er að ræða sex skóla, Grunnskólann á Hellu, Hvolsskóla, Kirkjubæjarskóla, Laugalands-skóla, Víkurskóla og Grunnskóla Vestmannaeyja.
Keppendur voru 13 talsins, en að auki var fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.
Umgjörðin var ekki af verri endanum, en hátíðin fór að þessu sinni fram í Eldheimum í Vest-mannaeyjum og höfðu þeir Eyjamenn veg og vanda af allri framkvæmd sem var til mikillar fyrirmyndar. Nemendur Tónlistarskóla Vestmannaeyja sáu um tónlistaratriði og boðið var upp á ljúffengar veitingar í hléi.
Veðrið var upp á sitt besta þennan dag og gátu keppendur og fylgdarlið þeirra ofan af landi farið fljúgandi frá Bakkavelli í Landeyjum.
Allir krakkarnir stóðu sig mjög vel og bar frammistaða þeirra sannarlega vitni góðri vinnu og þjálfun í skólunum í vetur.
Eins og oft áður var dómnefndinni vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara, en á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:

1. sæti Eva María Þrastardóttir Hvolsskóla
2. sæti Christian Dagur Kristinsson Laugalandsskóla
3. sæti Bertha Þorsteindóttir Grunnskóla Vestmannaeyja

Ráðning náms- og starfsráðgjafa.

Sl. haust samþykktu sveitarstjórnir allra aðildarsveitarfélaga Byggðasamlagsins að fela Skólaþjónustunni að ráða til starfa náms- og starfsráðgjafa í 100% starf frá og með næsta skólaári.

Starfið var auglýst nú í vor og bárust um það fimm umsóknir.

Nýlega var gengið frá ráðningu Arnheiðar Daggar Einarsdóttur í starfið og mun hún hefja störf hjá okkur í ágúst. Arnheiður, sem búsett er á Guðnastöðum í Landeyjum, útskrifast með masterspróf í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands nú í júní, en hún er að auki með B.Ed.próf í kennslu ungra barna.

Arnheiður mun sinna lögbundinni náms- og starfsráðgjöf í grunnskólunum á þjónustusvæði Skólaþjónustunnar og er hún boðin hjartanlega velkomin til starfa

01.04.2016

Leikskólaráðgjafi kominn til starfa.

Þann 1. apríl sl. tók til starfa hjá Skólaþjónustunni nýr
leikskólaráðgjafi, Halldóra Guðlaug Helgadóttir.
Halldóra Guðlaug, sem er bæði leik-og grunnskólakennari að mennt, auk þess að hafa diplómu í sérkennslufræðum, starfaði áður sem sérkennslustjóri og staðgengill leikskólastjóra á Leikskólanum Heklukoti á Hellu.

Halldóra hefur vinnuaðstöðu að Ormsvelli 1 á Hvolsvelli,
símanúmer hennar er 861-8674 og netfangið er
halldora@skolamal.is

Við bjóðum Halldóru innilega velkomna til starfa hjá Skólaþjónustunni.

31.03.2016

Nýjar bækur á skrifstofu.

Logar/ Texta- og verkefnabók í íslensku

Orðspor/ Íslenska fyrir miðstig grunnskóla

Skali 2B/ Stærðfræði fyrir unglingastig / nemendabók

Skapandi skóli/ Handbók um fjölbreytta kennsluþætti og stafræna miðlun

Sestu og lestu/ Hetjurnar þrjár

Nokkur ljóð/ Guðmundur Böðvarsson

Átök á Ólympsfjalli/ Endursögn Illugi Jökulsson

25.11.2015

Skimun í stærðfræði í 3. bekk
Samkvæmt áætlun Skólaþjónustunnar og grunnskólanna á svæðinu um skimanir námserfiðleika, fer nú í nóvember fram skimun eftir stærðfræðierfiðleikum meðal nemenda í 3. bekk og er þetta í annað sinn sem slík skimun fer fram hér hjá okkur.
Um er að ræða Skimunarhefti Talnalykils fyrir 3. bekk að hausti, en heftið inniheldur þrettán reikningsdæmi þar sem prófuð er kunnátta í reikningsaðgerðunum fjórum, samlagningu, frádrætti, margföldun og deilingu.
Í þeim skólum þar sem til staðar eru kennarar með réttindi á Talnalykil, sjá þeir um fyrirlagningu og úrvinnslu prófanna, en í öðrum skólum er verkið í höndum kennsluráðgjafa. Hann sér einnig um að vinna samanburð milli skólanna og kynna niðurstöður fyrir skólafólkinu sem nýtir sér þær til að skipuleggja kennsluna, bæði fyrir allan bekkinn, en eins fyrir einstaka nemendur.
Gert er ráð fyrir að allir nemendur 3. bekkja skólanna fimm taki þátt í skimuninni, en foreldrum er þó að sjálfsögðu gefinn kostur á að afþakka þátttöku sinna barna, óski þeir ekki eftir að þau taki prófið.

12.10.2015

Ný bók til útláns í gagnasafni:

Autism.

Braking through to discover the extraordinary.

Accept, embrace and nurture a new „normal“.

21 ways to live & grow with Autism.

 

 

05.10.2015

Um þjónustu talmeinafræðings .

Talmeinafræðingur skólaþjónustunnar metur málþroska barna í kjölfar tilvísana frá foreldrum og skólum.

Í kjölfar greiningarinnar heldur talmeinafræðingur skilafund með

foreldrum og starfsfólki skóla þar sem niðurstöður eru kynntar, greinargerð skilað og ráðgjöf veitt vegna áframhaldandi vinnu með barnið heima og í skóla.

Börn sem þurfa á mál- og talþjálfun að halda geta fengið þjálfun hjá talmeinafræðingi skólaþjónustunnar, en foreldrar geta einnig leitað til sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga óski þeir þess

Börn sem hafa minni háttar vanda, en þurfa þó þjálfun að mati talmeinafræðings geta fengið allt að 10 þjálfunartíma á kostnað sveitarfélagsins hjá talmeinafræðingi skólaþjónustunnar. Um getur verið að ræða minniháttar framburðargalla sem ekki falla undir viðmið Sjúkratrygginga Íslands v. kostnaðarþátttöku, slaka hlustun, orðaforða og hljóðkerfisvitund sem m.a. getur leitt til lestrarerfiðleika síðar meir.

Börn sem greinast með umtalsverð málþroskafrávik og alvarlega framburðargalla og falla þar af leiðandi undir viðmið Sjúkratrygginga Íslands eiga rétt á niðurgreiðslu SÍ í allt að 20 þjálfunartíma.

Fyrir þau börn sem falla undir viðmið S.Í. þarf að fá læknisvottorð (beiðni um talþjálfun). Talmeinafræðingur aflar þess í samvinnu við foreldra áður en til þjálfunar kemur. Foreldrar greiða 23% kostnaðar við þá þjálfun og er þar tekið mið af gjaldskrá SÍ.

Frá og með 1. ágúst 2015 verður hlutur foreldra í mál- og talþjálfun þeirra barna sem rétt eiga á niðurgreiðslu SÍ og nýta sér þjónustu talmeinafræðings skólaþjónustunnar eftirfarandi:

  • Framburðarþjálfun (30 mínútur) kr. 1460.- pr þjálfunartíma.
  • Almenn mál- og talþjálfun (40 mínútur) kr. 1947.- pr. þjálfunartíma.

Þjálfun fer alla jafna fram í heimaskóla barns, en einnig getur talmeinafræðingur óskað eftir að barn komi til þjálfunar á skrifstofu skólaþjónustunnar á Hvolsvelli.

Að lokinni þjálfunarlotu er tekið hlé, talmeinafræðingur metur árangur þjálfunarinnar og stöðu barnsins og skilar skriflegri niðurstöðu til foreldra og skóla.

Ef barn þarf að mati talmeinafræðings á áframhaldandi þjálfun að halda, býðst því önnur lota á næstu önn eða seinna, eða eftir samkomulagi við foreldra og skóla.

Foreldri/forráðamanni er skylt að sitja í þjálfunartímum með barninu, óski talmeinafræðingur eftir því, til þess að geta betur fylgt eftir þjálfuninni heima. Þjálfun og eftirfylgni heima eykur til muna líkur á góðum árangri.

 

 

 

01.10..2015

Skimanir í 3., 6. og 9. bekk

Síðastliðinn vetur hófst samstarf skólaþjónustunnar og grunnskólanna á svæðinu um fyrirlagningu samræmdra skimunarprófa í lestri og stærðfræði í 3., 6. og 9. bekk.

Markmið með slíkum skimunum er annars vegar að kortleggja stöðu nemendanna svo skipuleggja megi kennsluna betur og hins vegar að finna fyrr þá nemendur sem glíma við lestrar- og stærðfræðierfiðleika, svo bregðast megi við með markvissum aðgerðum.

Í stærðfræðinni er um hóppróf í 3. og 6. bekk að ræða, sem er hluti af staðlaða stærðfræðigreiningarprófinu Talnalykli. Það er lagt fyrir allan bekkinn í einu og tekur fyrirlögnin u.þ.b. eina kennslustund.

Í lestrinum eru nokkrir hlutar staðlaða lestrargreiningarprófsins LOGOS lagðir einstaklingslega fyrir hvern og einn nemanda í 3. og 6. bekk og tekur fyrirlögnin u.þ.b. 30 mínútur pr. nemanda.

Hópprófið GRP-14, sem er greinandi ritmálspróf, er lagt fyrir í 9. bekk og tekur fyrirlögn þess u.þ.b. eina kennslustund.

Skimanirnar dreifast yfir veturinn frá september og fram í apríl. Foreldrum er gefinn kostur á að afþakka þátttöku barna sinna óski þeir ekki eftir að þau taki prófin.

Fyrirlagning og úrvinnsla skimananna er í höndum sérkennara skólanna og kennsluráðgjafa skólaþjónustunnar. Unnið er sameiginlega úr prófunum og niðurstöður bornar saman milli skólanna. Fundað er með kennurum viðkomandi bekkja og tiltæk úrræði rædd til að bregðast við í samræmi við niðurstöðurnar. Einnig er í kjölfar skimananna boðið upp á einstaklingsgreiningar fyrir þau börn sem það þurfa. Í þeim tilvikum þarf skriflegt samþykki foreldra/forráðamanna alltaf að liggja fyrir áður en til greiningar kemur.

Hafi foreldrar einhverjar spurningar varðandi prófin eða framkvæmd þeirra, eru þeir hvattir til að hafa samband við sérkennara skólanna eða kennsluráðgjafa skólaþjónustunnar.